Frágangur

Þegar hópastarfinu lýkur formlega er mikilvægt að meta hvort starfið hafi skilað tilætluðum árangri. Til þess eru ýmsar leiðir en hér getur þú fundið könnun sem gott er að leggja fyrir þátttakendur í upphafi og aftur í lok starfsins. Ef markmið hafa ekki náðst þarf að meta hvort þörf sé á að framlengja starfinu til að ná settum markmiðum.
Þegar mat á starfinu liggur fyrir er einnig er mikilvægt að skrfia skýrslu um starfið, hvað gekk vel og hvað ekki. Þetta er gert til að reynslan af verklaginu nýtist öðrum og auki líkur á að ná árangri með aðra hópa.

Endurfundir

Gott getur verið að hitta hópinn aftur eftir að um 3-6 mánuðir eru liðnir frá því að formlegu stafi með hópinn lauk. Þá er hægt að boða þátttakendur í einstaklingsviðtöl og kanna hvernig þeim hefur gengið eftir að starfinu lauk. Einnig er hægt að boða allann hópinn saman á fund, en hann þarf ekki að vera mjög formlegur. Það er gott að vera búin að ræða það við hópinn áður en að formlegu starfi líkur að hópurinn verði kallaður saman aftur á ákveðnum tímapunkti.

Það er hægt að leggja spurningalista fyrir einstaklingana í hópnum. Þar má t.d. rannsaka hvernig þeim fannst leiðbeinendur standa sig, hvort að tímasetning og staðsetning hópsins hafi verið góð og að lokum hvort að starfið hafi verið markvisst og skilað tilætluðum árangri.

Þá má að sjálfsögðu hvetja einstaklinga innan hópsins til þess að halda áfram að hittast án þess að starfsmaður sé með, þá er jákvætt ef hægt er að veita hópnum aðstöðu innan veggja félagsmiðstöðvarinnar óski þau eftir því og sé þess kostur.

Mat á starfinu

Við upphaf hópastarfs er gott að leggja könnun fyrir þátttakendur sem gerir grein fyrir líðan þeirra, vonum og væntingum fyrir hópastarfið og endurtaka könnunina við lok starfsins til að meta árangur þess. Ef hópastarfið er yfir lengri tíma má einnig leggja könnun fyrir um miðbik starfsins til að meta það starf sem fram hefur farið og leggja línur fyrir það starf sem er eftir.

Gott er að notast við einföld form eins og t.d. Google Forms til að fá svör við fyrirfram ákveðnum spurningum. Hér má sjá dæmi um mat að loknu hópastarfi sem er eingöngu fyrir leiðbeinendur til að meta árangur starfsins og hvað má betur fara.

Einnig er gott að leggja svipað mat fyrir foreldra/forsjáraðila til að meta þeirra sjónarhorn á þátttöku barnsins og sníða þær spurningar að þeim upplýsingum sem þið óskið eftir að fá frá foreldrum. Sem dæmi má nefna; hvers vænta foreldar af þátttöku barnsins o.s.frv. Eftir þátttöku í hópastarfinu er síðan hægt að óska eftir svörum hvort starfið hafi staðist væntingar, hvort foreldar séu ánægðir með starfið í heild sinni, upplýsingagjöf o.s.frv.

Mat á árangri þátttakenda og áhrif hópastarfs á líðan þeirra

Sem dæmi um formlegra mat á áhrifum hópastarfsins og líðan þátttakenda fyrir og eftir starfið er gott að nýta formlegri mælitæki eins og staðlaða spurningalista sem gefa skýra mynd af árangri og áhrifum starfsins.

Kynning á niðurstöðum í hópastarfi

Að hópastarfi loknu er gott að kynna niðurstöður starfsins fyrir þeim er málið varðar.

  • Kynna fyrir deildarstjóra og öðru starfsfólki sem koma að starfi með þátttakendum
  • Kynna niðurstöður fyrir foreldrum/forsjáraðilum þátttakenda og annarra ef við á
  • Ræða við námsráðgjafa eða viðeigandi starfsmenn skóla
  • Mögulega halda kynningu fyrir starfsmenn annara frístundamiðstöðva á “Höfuðið í bleyti“
Back To Top