Stutt lýsing
Mikilvægt er að undirbúa fyrsta skiptið með hópnum vel til að hópurinn upplifi öryggi og festu í komandi starfi.
Almennur texti
1. Að brjóta ísinn. Með því er hægt að flýta fyrir því að þátttakendur kynnist og hvetja til jákvæðra samskipta. Í tilfellum þar sem þátttakendur í hópnum þekkjast ekki fyrir er upplagt að byrja á nafnaleik. Eftir það og í þeim tilfellum þar sem allir þekkjast er gott að fara í leiki sem hafa það að markmiði að brjóta ísinn og þjappa hópnum saman.
2. Finna nafn á hópinn. Þátttakendur í hópastarfinu ættu sjálfir að finna nafn á hópinn. Þetta er t.d. hægt að gera með því að fá nokkrar hugmyndir upp á töflu og síðan er kosið um besta nafnið. (á ekki alltaf við)
3. Hópurinn setji sér reglur. Reglur eru bæði settar áður en hópastarfið hefst og eftir að það er komið í gang. Leiðbeinandi þarf oft að setja ákveðnar reglur áður en hópastarfið hefst sem snúa að starfsreglum starfsstaðarins eða lögum í landinu. Dæmi um slíkar reglur væri að ekki megi nota vímuefni í hópastarfinu og að þar megi ekki beita ofbeldi af neinu tagi. Reglur ætti að orða á jákvæðan frekar en neikvæðan hátt. Í stað þess að segja: ,,Líkamlegt ofbeldi er bannað” væri betra að orða þessa reglu ,,Þátttakendur virða alltaf líkamlegt og andlegt svæði hvers annars”. Æskilegt er að þátttakendurnir setji flestar reglurnar sjálfir, t.d. reglur varðandi mætingu og trúnað. Mikilvægt er aðhópurinn komi sér saman um hverjar afleiðingarnar eigi að vera ef reglur eru brotnar. Hópur sem hefursett sér reglur og rætt þær vel í byrjun er miklu betur staddur en hópur sem ekki hefur farið í gegnum það ef eitthvað kemur upp á (Gladding, 1999).
4. Þegar byrjað er með hóp sé mikilvægt að vinna með spennu hjá þátttakendum. Lítil spenna þátttakenda getur verið til góða þegar byrjað er með hóp. Þátttakendur eru þá ef til vill að stíga út fyrir sitt öryggissvæði, finnst verkefni hópsins vera ögrandi og ef þeir ná að leysa verkefni hópsins og tekst að samlagast hópnum þá eykst sjálfstraustið og ákveðið nám á sér stað. Hins vegar er of mikil spenna eða kvíði þátttakenda ekki til góða. Því er mikilvægt að leiðbeinandi sé vel vakandi yfir því bæði áður en hópastarfið fer af stað og eftir hvern fund hvort einhver þátttakandi sé kvíðinn. Þá þarf að ræða við viðkomandi og leitast við að minnka kvíðann. Of mikill kvíði getur valdið því að þátttakandi t.d. mæti ekki í hópastarfið eða brotni niður fyrir framan hópinn og slíkt hefur slæm áhrif á sjálfstraust einstaklingsins.
5. Leiðbeinandi í hópastarfi þarf að ýta undir jákvæð samskipti í hópnum allt frá byrjun. Þetta er hægt að gera með því að taka upp málefni sem þátttakendum finnst áhugaverð, byrja á að láta þá jákvæðustu tjá sig, skipta um málefni þegar aðeins hluti hópsins er áhugasamur, stoppa strax neikvæð og fjandsamleg samskipti og síðast en ekki síst með því að vera skemmtilegur. Ef ekki tekst að skapa jákvætt andrúmsloft er hætta á að þátttakendur hætti að vera virkir, fari að ráðast hver á annan eða hreinlega hætti að mæta.
