Stutt lýsing
Í undirbúningsferlinu fyrir hópastarf kemur fram mikilvægi þess að unnið sé eftir skýrum markmiðum.
Almennur texti
Gildi þess að skilgreina markmið þegar hópastarf er skipulagt felst m.a. í því að með skýrum hugmyndum um tilgang og takmark viðfangsefna er komin forsenda þess að hægt sé að skipuleggja starfið með markvissum hætti. Með skilgreindum markmiðum er þá átt við skráðar lýsingar á tilgangi hópastarfsins og þeim árangri sem stefnt er að.
Markmið eru góður leiðarvísir um alla uppbyggingu og skipulag hópastarfsins og grundvöllur þess að hægt sé að meta hvernig til tókst. Ef leiðbeinendur velja að kynna markmiðin, öll eða að hluta til, fyrir þátttakendum og/eða foreldrum þeirra má segja að skýr markmið séu einnig forsenda þess að þeim sem taka þátt í starfinu sé ljós tilgangurinn með því (Ingvar Sigurgeirsson, 1999).
Þeir sem eru hlynntir markmiðssetningu líta þannig á málið að það hljóti að vera gagn í því að leggja skipulega niður fyrir sér til hvers á að gera það sem ætlunin er að gera auk þess sem það auðveldar leiðbeinendum að gera öðrum grein fyrir tilgangi þess starfs sem fara á út í. Leiðbeinanda verður þannig einnig betur ljóst hver er kjarninn í því sem til stendur að gera í hópastarfinu (Ingvar Sigurgeirsson,1999).
Markmiðum er oft skipt niður í flokka eftir því hvort þau eru talin langdræg eða skammdræg. Langdræg
markmið ganga reyndar undir ýmsum fleiri nöfnum eins og t.d. langtímamarkmið, yfirmarkmið eða meginmarkmið. Skammdræg markmið ganga einnig undir ýmsum nöfnum s.s. skammtímamarkmið, undirmarkmið eða sértæk markmið (Ingvar Sigurgeirsson, 1999).
Langdræg markmið eru þess eðlis að þeim verður ekki náð með einstökum viðfangsefnum og þau nást jafnvel aldrei til fullnustu (Ingvar Sigurgeirsson, 1999).
Dæmi
Í hópastarfinu fá þátttakendur tækifæri til að þroska með sér hópvitund og þjálfa samskiptahæfni sína. Skammdræg markmið eru sett fyrir einstök eða afmörkuð viðfangsefni (Ingvar Sigurgeirsson, 1999).
• Að þátttakendur taki virkan þátt í hópeflisleikjum.
• Að þátttakendur skilji mikilvægi þess að samskiptin í hópnum lúti ákveðnum skilyrðum.
• Að þátttakendur kunni að hlusta þegar aðrir þátttakendur hafa orðið.
• Að þátttakendur geri sér grein fyrir því hvað felst í hugtakinu ,,heilbrigður lífsstíll”.
Um leið og lögð er áhersla á mikilvægi skilmerkilegra markmiða er rétt að benda á að leiðbeinandinn verður samt sem áður að tileinka sér ákveðinn sveigjanleika gagnvart þeim og að aldrei má binda sig algjörlega við markmiðin. Ýmsar ástæður geta valdið því að markmið reynast þegar upp er staðið óraunhæf og eins getur áhugi þátttakenda þróast með þeim hætti að full ástæða getur verið að ýta markmiðunum til hliðar um skeið og jafnvel breyta þeim eða setja ný (Ingvar Sigurgeirsson,1999).
