Undirbúningur / 2.2 Kynning á Hópastarfi

2.2 Kynning á Hópastarfi

Stutt lýsing

Mikilvægt er að greina fyrir hvaða börn starfið er og meta með hvaða hætti það verður kynnt.

Almennur texti

Hægt er að fara mismunandi leiðir við kynningu á hópastarfinu. Kynna þarf starfið fyrir samstarfsaðilum, foreldrum og væntanlegum þátttakendum. Þegar um er að ræða sértækt hópastarf er mikilvægt að kynna starfið vel fyrir þeim samstarfsaðilum sem munu vísa í hópana og þá er fagleg kynning mjög mikilvæg. Það hvernig starfið er kynnt foreldrum og þátttakendum hefur bæði áhrif á það hvernig væntanlegir þátttakendur skynja starfið, hverjir munu hafa áhuga á þátttöku og hvert viðhorf foreldra verður. Munnleg kynning getur verið mjög persónuleg en það getur takmarkað mjög þann fjölda sem næst til og það sama á við ef leiðbeinandi talar sérstaklega við hugsanlega þátttakendur. Skrifleg kynning nær til stærri markhóps en hún verður að gefa nægilega skýr skilaboð fyrir hvern hópastarfið er hugsað til þess að ekki taki of langan tíma að finna út hver passar í hópinn og hver ekki (Gladding, 1999). Ef um er að ræða sjálfsprottna áhugahópa er yfirleitt ekki þörf á slíkri kynningu af hendi leiðbeinenda, þar sem áhugi þátttakenda er nægileg forsenda fyrir þátttöku. Ef þátttakendur vantar í slíka hópa getur leiðbeinandi m.a. hengt upp auglýsingu í félagsmiðstöðinni eða auglýst eftir þátttakendum á heimasíðu hennar.

Back To Top