Undirbúningur / 2.4 Samstarfsaðilar

2.4 Samstarfsaðilar

Stutt lýsing

Gott samstarf er einn af lykilþáttum í faglegu hópastarfi. Samstarfsaðilar eru t.d. foreldrar, starfsfólk skóla, lögregla, þjónustumiðstöð, starfsfólk annarra félagsmiðstöðva.

Almennur texti

Þegar unnið er með sértæka hópa er nauðsynlegt að vinna náið með foreldrum og aðilum frá skóla og velferðarþjónustu. Þegar um er að ræða hópastarf þar sem einstaklingar koma fyrst og fremst saman vegna sameiginlegra áhugamála er vægi foreldrasamskipta oft ekki mikið. Það er þó mjög jákvætt gagnvart foreldrum að kynna hópastarfið og t.d. getur verið sniðugt að senda bréf heim til foreldra þátttakenda og láta þá vita af þátttöku unglings í hópnum, segja frá markmiðunum, dagskránni, tímasetningu funda og gefa foreldrum færi á að hafa samband við umsjónarfólk hópsins ef þeir hafa einhverjar spurningar. Að öðru leyti er aðallega haft samráð við foreldra ef hóparnir eru að standa að fjáröflunum, fara í ferðalög o.s.frv. 

Gott foreldrasamstarf verður þó sjaldan ofmetið. Þegar unnið er með hópa sem tengjast áhugasviði þátttakenda er yfirleitt ekki um að ræða samstarf við aðra aðila varðandi val á þátttakendum enda er sjaldnast um slíkt val að ræða heldur skrá áhugasamir sig í hópinn. Það er helst þegar slíkir hópar eru notaðir til þess að tengja einstaklinga inn í unglingahópinn, t.d. ef unglingur er nýfluttur í hverfið og þekkir engan þá er hægt að nota slíka hópa til að unglingurinn kynnist jafnöldrum sínum. Þá getur verið að aðilar frá þeim skóla sem viðkomandi sækir hafi samband við félagsmiðstöðina til að fá upplýsingar um hvað er hægt að gera til að tengja viðkomandi inn í félagslífið í hverfinu. 

Þegar unnið er með sértæka hópa er nauðsynlegt að vera í góðu samstarfi við t.d. foreldra, skóla og/eða félagsráðgjafa þegar valið er í hópana.  Ef t.d. á að vinna sérstaklega með unglinga sem eru félagslega einangraðir getur verið gott að finna þátttakendur í gegnum námsráðgjafa skólanna og/eða félagsráðgjafa ásamt því að fá upplýsingar um hugsanlega þátttakendur hjá starfsfólki viðkomandi félagsmiðstöðvar. Oft þarf ekki að leita uppi þátttakendur í hópastarf þar sem starf af þessu tagi er yfirleitt svar við vandamálum ákveðins hóps og þá er aðalatriðið að ákveða hversu margir og hverjir af stærri hóp þurfa mest á aðstoð að halda. Þarna spila svokallaðir samráðsfundir í hverfinu stórt hlutverk en á þeim sitja yfirleitt fulltrúar frá velferðarþjónustu, lögreglu og félagsmiðstöð og í sumum tilfellum aðilar frá skóla/ skólum. Á þessum fundum er vettvangur til að ræða hvaða úrræði er mest þörf fyrir og hvernig samstarfi varðandi lausn ýmissa vandamála skuli háttað og hvaða verkaskiptingu er best að viðhafa í hverju tifelli fyrir sig. 

Back To Top