Stutt lýsing
Samsetning hópastarfs skiptir miklu máli í undirbúningi. Leitast skal við að velja saman einstaklinga með sambærilegar þarfir og áhugamál. Hugmyndafræði og vinnuaðferðir eru mismunandi þegar kemur að samsetningu hópa. Allt frá áhugatengdu hópastarfi yfir í flóknari sértækari hópa. Eðli og tilgangur hópastarfsins ræður yfirleitt samsetningu þátttakenda.
Almennur texti
Það eru margar leiðir til að undirbúa og hefja hópastarf, en áður en þátttakendur hittast fyrst er nauðsynlegt að ákveðinn undirbúningur eigi sér stað (Gladding, 1999). Hér á eftir er fjallað um fimm mikilvæg skref við myndun hópa:
1. Hvað er skilgreint sem vandi
Til að fjalla um mikilvægi þess að vinna sérstaklega með unglinga sem eiga við félagslegan vanda þarf að skilgreina sérstaklega hver birtingarmynd og ástæða vandans er. Mikið er til um skilgreiningar á vanda unglinga og hafa margar rannsóknir verið gerðar og því erfitt að skilgreina nákvæmlega hvað flokkast sem vandi og hvað ekki. Skilgreiningin er unnin að fyrirmynd ÍTR frá árinu 2012. Mjög mikilvægt er að skilgreiningin sé sem víðust og nái yfir allan hugsanlega vanda sem börn og unglingar kunna að eiga við. Þetta þýðir að hægt er að flokka sértækan vanda undir þá flokka sem eru í skilgreiningunni.
2. Agavandamál – áhættuhegðun – afbrot
Agavandamál innan skóla og áhættuhegðun eru í raun aðskilin hegðunarvandamál þó þau geti að sjálfsögðu tengst. Áhættuhegðun getur verið bæði tengd líkamlegu ofbeldi og ekki eins og til dæmis vímuefna misnotkun, óhóflegri áfengisnotkun, sjálfsskaða, ástundarvanda og óvörðu kynlífi með mörgum mökum. Upphaf áhættuhegðunar hjá börnum er yfirleitt vísbending um langan feril í áhættuhegðun og áhættusækni (Shepherd og Farrington, 2003).
Ekki hefur öll áhættuhegðun sömu birtingarmynd en til að skilgreina vandann betur er rétt að skilja ofbeldishegðun frá og útlista nánar. Það er hluti af þroska barna að sýna á einhverjum tímapunkti árásarhneigð og slást en munurinn á þeirri hegðun og ofbeldishegðun er sú að árásarhneigðin er stöðug og lamar krakkana félagslega og er þeim oft hafnað af jafnöldrum. Talið er að um 5% barna séu með andfélagslega og ofbeldisfulla hegðun. Þegar á fullorðinsár er komið heldur hegðunin yfirleitt áfram, tengslamyndun er lítil og atvinnuleysi mikið. Kostnaðurinn við þessa einstaklinga er allt að tíu sinnum meiri en annarra sem þurfa félagsþjónustu og krefst samstarfs margra aðila. Um 30% þeirra barna sem fá aðstoð vegna geðræns vanda barna eru börn með andfélagslega ofbeldishegðun. Þessi hegðun á mjög oft rætur sínar að rekja til harðræðis og ósamræmis í uppeldi (Scott, Quentin , Doolan, Jacobs, og Aspland, 2001).
3. Einelti
Til eru ótal skilgreiningar á einelti sem ganga mislangt í að útskýra einelti. Ákveðið var að miðað verður við skilgreiningu Kolbrúnar Baldursdóttur:
Um er að ræða ámælisverða eða endurtekna ótilhlýðilega háttsemi þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, sniðganga, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni eða önnur háttsemi sem beint er að kyni eða kynbundnum þáttum viðkomandi og særir siðferðisvitund hans fellur hér undir
Kolbrún Baldursdóttir, 2011
Einkenni
Það sem einna helst einkennir þolendur eineltis er að þau eru oft óöruggari, hlédrægari, hæverskari oft en börn almennt. Þeir einstaklingar sem verða fyrir einelti, eru ekkert öðruvísi í útliti né eru aðstæður þeirra frábrugðnar. En þau einkenni sem hér hafa verið nefnd gerir þau oft að auðveldum skotmörkum. Þau geta átt erfitt í skólum, tómstundum og félagslífi og eiga oftar en ekki erfitt með að aðlagast nýjum kringumstæðum (Guðjón Ólafsson, 1996). Þolendur eineltis reyna öllu jöfnu að leyna eineltinu, þau kenna sjálfum sér um hver staðan er, missa gleði, þrótt og jafnvel lífsvilja (Guðjón Ólafsson, 1996).
Gerendur sýna oft jákvæð viðhorf til ofbeldis og hafa meiri árásarhneigð en önnur börn. Þeir hafa litla tilfinningu fyrir líðan annarra. (Guðjón Ólafsson, 1996). Þeim tekst að loka augunum fyrir hegðun sinni, taka ekki ábyrgð og geta kennt þolandanum um ástandið (Elín Einarsdóttir og Guðmundur Ingi Leifsson, 2001).
Þeir einstaklingar sem leggja aðra í einelti eru líklegri til að sýna af sér aðrar tegundir ofbeldishegðunar í æsku og á unglingsárum og það sem meira er að síðar á lífsleiðinni er þessi hópur líklegri til þess að gerast sekur um heimilisofbeldi gegn maka, börnum og öldruðum og þeir eru einnig líklegri til að gerast sekir um kynferðislega áreitni (Pepler, Craig og Connolly, 1997). Einnig hafa erlendar rannsóknir sýnt fram á að um 60% stráka sem eru gerendur í einelti eru að minnsta kosti komnir með einn fangelsisdóm þegar þeir hafa náð 24 ára aldri (Olweus, 1989). Rannsóknir hafa sýnt fram á að árásargjörn hegðun tengist aðlögunarvanda barna, svo sem höfnun jafningja (Scott, Quentin , Doolan, Jacobs, & Aspland, 2001).
4. Afbrot – Vímuefnaneysla
Samkvæmt rannsóknum þá er hægt að sjá snemma hvaða einstaklingar eru líklegri til að brjóta lög þegar þau verða eldri. Kennarar gátu í rannsókn sem var gerð í Kanada séð fyrir með þó nokkurri nákvæmni hvaða börn myndu seinna verða afbrotamenn. Einkenni þessara barna eru árásarhneigð bæði líkamleg og andleg og ónærgætni (e. uncaring). Drengir voru mun líklegri samkvæmt rannsókninni til að stunda ofbeldisglæpi. Rannsóknin var gerð útfrá fyrirfram ákveðnum gildum (CP og HUB skalar) þar sem kennarar mátu hegðun barnanna. Einstaklingar sem skoruðu yfir 90% voru fjórum sinnum líklegri til að brjóta af sér á fullorðinsárum. Þau atriði sem eru metin í CP skalanum eru að slást, sparka, bíta, lemja, óhlýðnast, ástundunarvandi, skemmdarverk og þjófnaður. Í HUB skalanum var metið hvort einstaklingar stundi; einelti, lygar, kenna öðrum um, hugsa takmarkað um þarfir annarra, hrósa ekki minnimáttar, lítil samúðarkennd, lítil hjálpsemi við jafnaldra í vanda og hugga ekki (Sheilagh, Larm, Ellenbogen, Vitaro og Tremblay, 2013).
Þegar vímuefnaneysla er skoðuð eru ótal þættir sem hægt er að skoða vandann útfrá. Heilsufarslegar, félagslegar, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar eru þættir sem allir verða fyrir áhrifum vímuefnaneyslu. Áætlað er að í Bandaríkjunum einum sé árlegur kostnaður vegna misnotkunar á vímuefnum um 181 milljarður Bandaríkjadollarar eða um 21 billjón íslenskar krónur (21 milljón milljónir). Talan er áætluð útfrá kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, framleiðslu missi, glæpa, fangelsisdóma og aðgerða til að hindra og stöðva neyslu (Harwood, 2000). Bein dauðsföll af vímuefnaneyslu vegna of stórra skammta voru árið 2000 orðin 9% af öllum dauðsföllum í Ástralíu (Hall og Zador, 2000). Þarna eru ekki meðtalin dauðsföll tengd vímuefnaneyslu eins og hjartasjúkdómar, lifrabólga C, krabbamein, umferðarslys, heimilisleysi, þunglyndi og sjálfsvíg.
Í rannsókn sem gerð var í Finnlandi á 25 ára einstaklingum sem sóttu sér meðferð vegna vímuefnaneyslu voru 21% heimilislausir, 54% atvinnulausir, 7% höfðu fengið hótanir um ofbeldi og 25% voru með lifrarbólgu. Einnig kom í ljós að 59% voru með geðrænan vanda (Uosukainen, o.fl., 2013).
5. Ástundarvandi
Ástæður ástundunarvanda geta verið margvíslegar, bæði getur verið um að ræða erfiðleika innan skólans og utan hans. Ástundunarvandi er oftast tengdur fjölskylduvandamálum, heimilisaðstæðum, vímuefna misnotkun og þáttum innan skóla eins og til dæmis einelti (Dimmick, Correa, Liazis og McMichael, 2011). Ástundunarvandi leiðir oft að brottfalli úr skóla og í sumum tilfellum að lögbrotum. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að nemendur með ástundunarvanda eru líklegri til að stunda innbrot, bílaþjófnað, fremja skemmdarverk og eru líklegri til að vera í vímuefnaneyslu þegar þau verða eldri (Zhan, Willson, Katsiyannis, Barrett, Ju, og Wu, 2010).
6. Vanræksla og ofbeldi á heimili
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að áhrif af heimilisofbeldi hvort heldur sem það er milli foreldra eða barns og foreldris getur leitt líkamlegra og andlegra kvilla sem geta varað alla ævi. Fyrir mörgum er það mjög langt ferli að ná sér aftur á strik og aðrir ná því aldrei (Kenneth og Call-Schmidt, 2000). Heimilisofbeldi veldur langvarandi ótta og eykur álag sem leiðir af sér kvíða. Börn og unglinga skortir þroska til að takast á við kvíða sem birtist sem ótti, skömm, niðurlæging og sektarkennd (Kenneth og Call-Schmidt, 2000).
Tengingar við vanrækslu og gerendur í eineltismálum koma skýrt fram í bandarískri rannsókn á heimilisofbeldi sem var gerð í Filipseyjum. Þar kom fram að það að verða vitni að ofbeldi milli foreldra margfaldaði líkurnar um 2.5 hjá drengjum á því að verða fórnarlamb eineltis. Fyrir stúlkur sem voru fórnarlömb ofbeldisglæpa tífölduðust líkur á því að verða annað hvort gerandi eða þolandi eineltis. Þegar unnið er með eineltismál er mikilvægt að skoða fyrri reynslu einstaklinganna af ofbeldi (Hindin og Gultiano, 2006).
Vanræksla er oft tengd við heimilisofbeldi en er í raun af öðrum toga. Vanræksla er þegar frumþörfum barns bæði líkamlega og andlega er ekki mætt. Afleiðingarnar af vanrækslu geta verið misþroski, minni þroski heila, lélegur árangur í skóla, lágt sjálfsmat, agavandamál og auknar líkur á geðrænum vanda. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að börn sem eru vanrækt eru lengur að þroskast heldur en börn sem hafa þolað ofbeldi (Tang, 2008).
7. Heilsa og geðheilbrigði
Þessi skilgreining er í raun afar opin og snýr að margvíslegum vandamálum sem ekki hafa verið flokkuð hér á undan. Dæmi um vanda sem snýr að heilsu og geðheilbrigði er óhófleg tölvunotkun, átröskun, offita, þunglyndi, kvíðaröskun og aðrar geðrænar raskanir. Eins eru afleiðingar af kynferðislegri misnotkun flokkaðar hér undir þar sem það er ekki í öllum tilfellum bundið við heimili. Mikill samnefnari er á milli þessara vandamála þar sem afleiðingin af þeim er lágt sjálfsmat, þunglyndi og kvíðaröskun (Peterson, o.fl., 2010) (Wieland, 2005). Hinsvegar er unnið afar ólíkt með þessa hópa og margir þurfa á sérfræðiaðstoð að halda.
