Undirbúningur / 2.4 Samstarfsaðilar

2.4 Samstarfsaðilar

Stutt lýsing

Samsetning hópastarfs skiptir miklu máli í undirbúningi. Leitast skal við að velja saman einstaklinga með sambærilegar þarfir og áhugamál. Hugmyndafræði og vinnuaðferðir eru mismunandi þegar kemur að samsetningu hópa. Allt frá áhugatengdu hópastarfi yfir í flóknari sértækari hópa. Eðli og tilgangur hópastarfsins ræður yfirleitt samsetningu þátttakenda.

Almennur texti

Samsetning hópastarfs skiptir miklu máli í undirbúningi. Leitast skal við að velja saman einstaklinga með sambærilegar þarfir og áhugamál. Hugmyndafræði og vinnuaðferðir eru mismunandi þegar kemur að samsetningu hópa. Allt frá áhugatengdu hópastarfi yfir í flóknari sértækari hópa. Eðli og tilgangur hópastarfsins ræður yfirleitt samsetningu þátttakenda.

1. Rökin fyrir hópastarfinu

Það er alltaf einhver hugmynd eða rök á bak við tilveru allra hópa. Því meira sem hugað hefur verið að myndunhópsins því meiri líkur eru á því að hugmyndin fái jákvæð viðbrögð og að útkoman úr starfinu verði jákvæð. Skýr rökstuðningur fyrir hópastarfinu er mikilvægasti hlutinn af undirbúningnum. Þeir leiðbeinendur sem eru ekki vissir um hvers vegna þeir eru að fara af stað með hópastarf munu í besta falli vera með hópastarf sem engu skilar og í versta falli starf sem gerir illt verra fyrir þátttakendur (Gladding, 1999).

2. Hugmyndafræði og vinnuaðferðir

Þetta skref tengist mjög rökunum fyrir hópastarfinu og hvers konar hóp á að fara að vinna með. Sumir leiðbeinendur segjast ekki vinna eftir ákveðinni hugmyndafræði og vilja meina að þeir láti það bara ráðast eftir hópnum hvernig vinnan þróast. Þetta er samt hugmyndafræði í sjálfu sér sem segir að leiðbeinandinn láti hópinn stýra vinnunni. Öll hugmyndafræði hefur sína kosti og sínar takmarkanir. Vanir leiðbeinendur geta valið aðferðir sem þeir telja henta hópnum út frá ákveðinni reynslu en hafa verður í huga að í öllu hópastarfi er verið að vinna með einstaklinginn, hans upplifun og samskiptin við og í hópnum. Það þarf að vinna með alla þessa þætti á ólíkan og fjölbreytilegan hátt. Stundum hefur því, hvernig þátttakendur virka í hóp, verið skipt upp í ég/við/það þar sem ég stendur fyrir einstaklinginn og áhersluna á hann, skoðanir hans, afstöðu og tilfinningar. Við stendur fyrir samskiptin á milli þátttakenda og það stendur fyrir málefni, verkefni og það sem skiptir hópinn máli. Leiðbeinendur sem vilja leggja áherslu á að vinna með samskipti (við) velur þá hugmyndafræði og vinnuaðferðir sem styðja við þá vinnu á meðan sá sem vill leggja áherslu á einstaklinginn (ég) velur aðrar leiðir. Í hópastarfi í félagsmiðstöðvum er yfirleitt verið að vinna út frá því fyrrnefnda (við) en ef unnið er út frá því síðarnefnda (ég) eru oft aðrir aðilar s.s. námsráðgjafar, félagsráðgjafar og sálfræðingar farnir að vinna með einstaklinginn. Burt séð frá því hvaða nálgun verður fyrir valinu verður leiðbeinandinn að hafa í huga að hver hópur hefur margar hliðar og að hópastarf er áskorun og flókið af því að hópar eru í eðli sínu flóknir (Gladding, 1999).

3. Kynning

Hægt er að fara mismunandi leiðir við kynningu á hópastarfinu. Kynna þarf starfið fyrir samstarfsaðilum, foreldrum og væntanlegum þátttakendum. Þegar um er að ræða sértækt hópastarf er mikilvægt að kynna starfið vel fyrir þeim samstarfsaðilum sem munu vísa í hópana og þá er fagleg kynning mjög mikilvæg. Það hvernig starfið er kynnt foreldrum og þátttakendum hefur bæði áhrif á það hvernig væntanlegir þátttakendur skynja starfið, hverjir munu hafa áhuga á þátttöku og hvert viðhorf foreldra verður. Munnleg kynning getur verið mjög persónuleg en það getur takmarkað mjög þann fjölda sem næst til og það sama á við ef leiðbeinandi talar sérstaklega við hugsanlega þátttakendur. Skrifleg kynning nær til stærri markhóps en hún verður að gefa nægilega skýr skilaboð fyrir hvern hópastarfið er hugsað til þess að ekki taki of langan tíma að finna út hver passar í hópinn og hver ekki (Gladding, 1999). Ef um er að ræða sjálfsprottna áhugahópa er yfirleitt ekki þörf á slíkri kynningu af hendi leiðbeinenda, þar sem áhugi þátttakenda er nægileg forsenda fyrir þátttöku. Ef þátttakendur vantar í slíka hópa getur leiðbeinandi m.a. hengt upp auglýsingu í félagsmiðstöðinni eða auglýst eftir þátttakendum á heimasíðu hennar.

4. Val á þátttakendum

Mikilvægt er að vanda val þátttakenda í hópinn og finna þá þátttakendur sem hópastarfið hentar fyrir. Ef um er að ræða áhugahópa veljast þátttakendur frekar sjálfkrafa inn í hópinn, nema þegar einstaklingar sem eru tengdir inn í slíka hópa með ákveðin markmið í huga, t.d. í þeim tilgangi að efla félagsleg tengsl. Hægt er að nota einstaklingsviðtöl til þess að finna út hvort einstaklingur á heima í hópnum og um leið er hægt að útskýra út á hvað hópastarfið gengur. Það að þátttakendur viti hvað þeir eru að fara út í og að búið sé að undirbúa þá eins og hægt er getur haft góð áhrif, flýtt fyrir hópþróunarferlinu, minnkað líkur á brottfalli og ýtt undir jákvæða niðurstöðu í starfinu. Þessi undirbúningur eða forþjálfun getur líka farið fram í stærri hóp en eins og gefur að skilja þá er ekki hægt að einblína eins mikið á einstaklinginn heldur frekar á þau málefni og verkefni sem hópurinn mun taka fyrir. Slík forþjálfun er ekki nauðsynleg en því betur sem þátttakendur og leiðbeinendur eru undirbúnir undir starfið því betra og þetta getur verið hluti af þeim undirbúningi. Val í hópa er yfirleitt ferli sem nær í báðar áttir, þ.e.a.s. bæði leiðbeinandinn og hugsanlegir þátttakendur leggja sitt af mörkum og hafa áhrif á ferlið. Markmið beggja aðila er að finna út hversu vel starfið hentar viðkomandi aðila.

Ef taka á hugsanlega þátttakendur í viðtöl er mikilvægt að:

  • Bera kennsl á þarfir, væntingar og vilja til þátttöku. Af þessum þáttum er viljinn talin mikilvægastur.
  • Leiðrétta allan misskilning. Það er mjög mikilvægt að hugsanlegir þátttakendur hafi skýrar og réttar upplýsingar um hópastarfið.
  • Koma öllum nauðsynlegum upplýsingum til skila. Hægt að ræða hvaða reglur gilda um trúnað og annað það sem leiðbeinandi telur mikilvægt.
  • Velja þátttakendurna. Bjóða því fólki þátttöku sem líklegt er að græði mest á henni. (Gladding, 1999) Gott er að huga vel að öllum þessum þáttum þegar verið er að mynda hópa.

Undirbúningur er mjög mikilvægur þegar hópastarf er annars vegar. Fórnarkostnaður vegna lélegs undirbúning getur verið hár og getur m.a. falið í sér að hátt hlutfall þátttakenda dettur út úr starfinu, þátttakendur mæta seint og illa á fundi, þeir sýna áhugaleysi, lítill stuðningur foreldra er við starfið, samstaða verður lítil í hópnum og litlar líkur eru á að sett markmið náist (Malekoff, 1997).

Umræðurnar í hópnum ásamt samskiptum og samskiptamynstri eru mikilvægir áhrifavaldar á það hvernig hópastarfið þróast en blanda af þessum þáttum er það sem endanlega ræður dýnamíkinni (andi, samstarf og virkni) í hópnum. Þátttakendur verða að skilja hvaða kostir eru í stöðunni hverju sinni, t.d. ef leysa þarf ákveðið verkefni, og geta rætt og speglað hugsanir sínar og tilfinningar í samskiptum við þá sem það treystir (Gladding, 1999). Líta má á hópinn sem nokkurs konar kerfi þar sem hver hluti hefur áhrif á aðra hluta þess. Þannig verður kerfið aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn hverju sinni. Hópurinn sem kerfi samanstendur af þremur lykilþáttum sem eru leiðbeinandinn, þátttakendurnir og hópurinn sem heild. Til þess að kerfið sé í lagi og sé skilvirkt verður hver og einn þessara þriggja þátta að virka vel með hinum tveimur. Þannig að ef þátttakendur eru í stöðugum árekstrum við hvorn annan mun hópurinn ekki virka sem heild og þá skiptir litlu máli hversu góður leiðbeinandinn er. Á sama hátt er það þannig að ef þátttakendur vinna vel saman en leiðbeinandinn nær ekki að nýta þann styrkleika hópsins mun hópurinn ekki ná fram sínu besta (Gladding, 1999).

Hvaða áhrif hópastarfið kemur til með að hafa á þátttakendur hópsins byrjar í raun á undirbúningstímanum þegar grundvallarákvarðanir varðandi starfið eru teknar:

  • Hvers konar hóp er ætlunin að mynda?
  • Hvaða þarfir hafa þátttakendur?
  • Við hvaða aðstæður starfar hópurinn?
  • Hvert er hlutverk þátttakenda í hópastarfinu?
  • Hver verður líftími hópsins?
  • Hvað er hópurinn að fara að gera? (Gladding, 1999; Malekoff, 1997)

Ef leiðbeinandi er ekki viss um hvers konar upplifun hann ætlar að byggja upp með hópnum þá mun hópastarfið ekki skila tilætluðum árangri. Í markvissu hópastarfi er mikilvægt að hafa eftirfarandi sex þætti í huga við undirbúninginn:

5. Markmið

Mikilvægt er að vanda val þátttakenda í hópinn og finna þá þátttakendur sem hópastarfið hentar fyrir. Ef um er að ræða áhugahópa veljast þátttakendur frekar sjálfkrafa inn í hópinn, nema þegar einstaklingar sem eru tengdir inn í slíka hópa með ákveðin markmið í huga, t.d. í þeim tilgangi að efla félagsleg tengsl. Hægt er að nota einstaklingsviðtöl til þess að finna út hvort einstaklingur á heima í hópnum og um leið er hægt að útskýra út á hvað hópastarfið gengur. Það að þátttakendur viti hvað þeir eru að fara út í og að búið sé að undirbúa þá eins og hægt er getur haft góð áhrif, flýtt fyrir hópþróunarferlinu, minnkað líkur á brottfalli og ýtt undir jákvæða niðurstöðu í starfinu. Þessi undirbúningur eða forþjálfun getur líka farið fram í stærri hóp en eins og gefur að skilja þá er ekki hægt að einblína eins mikið á einstaklinginn heldur frekar á þau málefni og verkefni sem hópurinn mun taka fyrir. Slík forþjálfun er ekki nauðsynleg en því betur sem þátttakendur og leiðbeinendur eru undirbúnir undir starfið því betra og þetta getur verið hluti af þeim undirbúningi. Val í hópa er yfirleitt ferli sem nær í báðar áttir, þ.e.a.s. bæði leiðbeinandinn og hugsanlegir þátttakendur leggja sitt af mörkum og hafa áhrif á ferlið. Markmið beggja aðila er að finna út hversu vel starfið hentar viðkomandi aðila.

6. Umhverfi

Þátttakendum verður að líða vel í því umhverfi sem hópurinn starfar í, hvort sem um er að ræða húsnæði eða andrúmsloftið þar sem starfið fer fram. Ef þátttakendum finnst þeir öruggir og þeim líður vel eru þeir viljugri til að taka áhættu og gefa sig alla í starfið (Gladding, 1999).

7. Tímabil

Samverustundirnar mega hvorki vera of langar né of stuttar. Fundir sem eru of langir valda því oft að þátttakendur verða þreyttir og missa áhugann. Flestir hópar þurfa a.m.k. 15 mínútur til að koma sér í gang þannig að kjörtími er ein til tvær klukkustundir í hvert skipti sem hist er. Ef hópar eru t.d. að hittast einu sinni í viku eru þetta þægilega langir fundir en auðvitað fer það eftir eðli hópastarfsins og hvað gera á hverju sinni hvort lengri tími er nauðsynlegur (Gladding, 1999).

8. Fjöldi

Jafnvel í fámennum hópum skiptir fjöldinn máli fyrir dýnamíkina í hópnum. Rannsóknir benda til að fleiri þátttakendur en 6-14 minnki ánægju með starfið og virknin minnki. Önnur rannsókn segir að betra sé að fjöldinn fari ekki yfir níu og enn önnur að ekki eigi að vera með fleiri en sautján þátttakendur. Þegar hópar eru orðnir of fjölmennir þá vilja verða til undirhópar. Það verður til þess að sumir meðlimir verða óvirkir og aðrir verða ráðandi. Samkeppni verður um athygli og spenna verður í samskiptum. Ef meðlimir eru færri en fimm geta líka komið upp vandamál. Þá er áherslan á hvern einstakling of mikil til að þeir geti lagt sitt að mörkum og fengið eitthvað út úr starfinu sem hópur (Gladding, 1999).

9. Samsetning

Meðlimir með ólíkan bakgrunn geta víkkað sjóndeildarhring hinna í hópnum og það getur hentað vel þegar verið er að vinna með ýmiss konar ráðgjöf. Hins vegar getur verið mjög áhrifaríkt að vinna með þátttakendur með svipaðan bakgrunn að sérhæfðum markmiðum. Eðli og tilgangur hópastarfsins ræður yfirleitt samsetningu þátttakenda. Kynjaskipting og uppruni/þjóðerni spilar þarna líka inn í. Í sumum hópum er það eitt af markmiðunum að þátttakendur séu með sem fjölbreyttastan bakgrunn sem endurspeglar þá jafnvel þau umræðu- og umfjöllunarefni sem taka á fyrir í hópnum. Aftur á móti getur ýmislegt komið upp í slíkum hópum sem leiðir hugann frá upprunalegum markmiðum starfsins (Gladding, 1999).

10. Aðrir þættir

Aðrir þættir geta haft áhrif á dýnamíkina í hópastarfinu s.s. misræmi á milli markmiða þátttakenda og markmiða hópsins í heild, hvort þátttakendur eru sjálfviljugir í hópnum eða voru þeir sendir í hann. Einnig hvort þátttakendur eru almennt opnir gagnvart sjálfum sér og öðrum, hvort þeir eru tilbúnir að taka þátt í að prófa nýja hluti og viðhorf þeirra gagnvart leiðbeinanda og hans stjórnun. Að lokum skiptir þolinmæði og viðhorf stjórnanda gagnvart ólíkum persónuleikum í hópnum miklu máli (Gladding, 1999). Áhrifin sem hópastarfið hefur á þátttakendur er niðurstaðan úr samspili ólíkra þátta sem þróast á ákveðinn hátt annað hvort vegna vandaðs undirbúnings eða lélegs undirbúnings. Þú uppskerð eins og þú sáir (Gladding, 1999).

Back To Top